Frá því að Evrópusambandið tók upp evruna hafa margir spáð henni hrakförum og að notkun hennar fyrir ríkin innan ESB væri óráð. Evran og umgjörðin um hana er sjálfsagt ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk og hefur eflaust bæði kosti og galla. Út í þá sálma verður ekki farið hér að sinni.
Oft er gott að kanna reynslu og viðhorf þeirra sem hafa notast við tiltekna hluti eða fylgt ákveðinni stefnu. Það vill svo til að borgarar allmargra Evrópusambandsríkja hafa notað evru um árabil. Þetta er 19 af 27 aðildarríkjum og það tuttugasta, Króatía, tekur hana upp sem gjaldmiðil núna um áramótin.
Evrópusambandið gerir margvíslegar viðhorfskannanir sem kallaðar eru Eurobarometer. Ein slík könnun var birt í liðnum október og fjallar um viðhorf til evrunnar.
Könnunin leiðir skýrt í ljós að íbúar þeirra ríkja sem nota evruna eru ánægðir með evruna sína. Þegar spurt er hvort viðkomandi sé almennt séð þeirrar skoðunar að evran sé góð fyrir hans heimaland svara 69% því játandi, en 22% telja hana slæma og 10% vita ekki eða vilja ekki svara. Þetta er býsna afgerandi niðurstaða.
Þegar spurt er sömu spurningar, en fyrir Evrópusambandið í heild í stað heimalands, verður niðurstaðan enn afdráttarlausari. Þá svara 77% jákvætt en 15% neikvætt og 8% vita ekki eða vilja ekki svara.
Afstaðan til spurninganna tveggja er mismunandi milli ríkja en alls staðar er þú skýr meirihluti. Þegar heimalandi á í hlut er bilið 59% – 82% sem telja evruna góða, en við síðari spurningunni um Evrópusambandið í heild er bilið 73% – 87%.
Niðurstöður könnunarinnar má kynna sér nánar á vef Evrópusambandsins.
Um evruna er líka deilt á Íslandi og hvort hún henti okkur. Á næsta verða það 20 nágrannaríki okkar sem telja að hún henti þeim vel – gæti það hugsast að hún hentaði hér?Evran verður hins vegar trauðla tekin upp hér á landi án aðildar að ESB.