Aukinn kraftur

Fjölmenni var á aðalfundi Evrópuhreyfingarinnar þann 4. febrúar 2023 á Nauthóli. Tæplega eitthundrað manns tóku þátt í störfum fundarins, eða um fimmtungur allra sem skráð eru í hreyfinguna. Félagsfólki hefur fjölgað hratt frá því að um 30 manns stofnuðu félagið 9. maí 2022 en nú er það orðið talsvert á sjötta hundraðið.

Ný stjórn
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var lögum breytt á þann veg að fjölgað var í stjórn úr fimm í sjö. 

Samtals buðu sig níu fram til að setjast í stjórn en í hana voru kosnin þau: Jón Steindór Valdimarsson, formaður, Bryndís Nielsen, G. Pétur Matthíasson, Inger Erla Thomsen, Helga Vala Helgadóttir, Hjalti Björn Hrafnkelsson og Valdimar Birgisson.

Viðhorf eru að breytast
Á fundinum var svo rýnt í nýlegar skoðanakannanir um viðhorf landsmanna til ýmissa þátta í Evrópumálunum. Þær benda eindregið til þess að viðhorf almennings til þess að halda aðildarviðræðum áfram og ganga í Evrópusambandið hafi sjaldan eða aldrei verið jákvæðara.

Evrópuhreyfingin fékk Maskínu til þess að kanna fyrir sig í byrjun desember 2022 viðhorf til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tók afstöðu eru hlynntur því að slík atkvæðagreiðsla fari fram eða rúm 66% en 34% andvíg.

Þá hafa aðrar kannanir sem hafa birst undanfarna mánuði bent eindregið til þess að stuðningur við að Íslandi gangi í Evrópusambandið hafi vaxið umtalsvert.

Allt gefur þetta Evrópuhreyfingunni byr undir vængi.

Þá var rætt um starfið framundan og hvernig því verður best hagað og fékk ný stjórn gott veganesti í þeim efnum.

Fjölmenni á aðalfundi

Stríð og friður
Síðast en ekki síst flutti sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Valur Gunnarsson afar athyglisvert erindi sem hann nefndi ESB í stríði og friði. Fór hann vítt og breitt yfir sviðið, átök og frið innan og við ytri mörk Evrópu þá og nú. Ekki fór á milli mála hve miklu máli skiptir að ESB varð og er til þegar kemur að því að halda friðinn. Friðinn sem er svo aftur forsenda hagsældar, framfara og þess að borgaraleg réttindi séu virt.