Eylönd eru ekki til

Ísland er vissulega eyja en alls ekki eyland þegar kemur að stöðu þess í samfélagi þjóðanna. Sama gildir um önnur ríki, stór sem smá. Allt er meira og minna samtvinnað og ekkert ríki getur hagað sér að eigin geðþótta án afleiðinga. 

Af þessum sökum vinna ríki saman, gera með sér samninga og bandalög af ýmsu tagi. Þannig er reynt að tryggja eftir mætti leikreglur til að draga úr því að ríki geti beit aflsmunum á sviði auðlinda, herafla eða stöðu sinni að öðru leyti með óeðlilegum hætti. Því miður eigum við átakanleg dæmi úr veraldarsögunni um annað, þar er af nógu að taka. Þetta á ekki bara við um fortíð heldur líka samtíð. 

Óþyrmileg áminning

Á þetta vorum við öll óþyrmilega minnt þegar Rússland gerði innrás í Úkraínu fyrr á þessu ári. Ekki þarf að fjölyrða um þær hörmungar sem þetta stríð hefur kallað yfir úkraínsku þjóðina og í raun líka þá rússnesku. Hitt er dagljóst að áhrifin hríslast um víða veröld, ekki síst um Evrópu. Árásarstríð Rússa beinist ekki bara gegn Úkraínu heldur einnig gegn þeim gildum sem Evrópa á saman og Evrópusambandið stendur skýrast fyrir.

Stríð minnir á gildi friðar

Á því ári sem nú er að líða hefur runnið upp ljós fyrir mörgum hve fallvaltur friðurinn er og hvaða afleiðingar stríð hefur á líf og hag, ekki bara hjá þeim sem eiga í stríði heldur víða um lönd. Þessir voðaatburðir hafa þjappað ríkjum Evrópu saman, aukið skilning á þýðingu Evrópusambandsins og að ríki þess standi þétt saman.

Almenningur hugsar sitt

Skoðanir íslensks almennings hafa líka breyst þegar kemur að afstöðu hans til aðildar að Evrópusambandinu. Þetta kemur ótvírætt fram í viðhorfskönnunum sem hafa birst á þessu ári.

Eina skýringin sem blasir við er að stríðið í Úkraínu hafi vakið fólk til umhugsunar um mikilvægi samstöðu og samvinnu, ekki síst til þess að halda um og verja sameiginleg gildi friðar, mannréttinda, laga og reglu. Það er ekki síst hagur þeirra sem smærri eru.

Ný vídd

Þó tilefnið sé hryggilegt er mikilvægt að taka mikilvægi þess alvarlega þegar við ræðum um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það hefur ný vídd bæst við sem gerir enn brýnna en áður að almenningur, þjóðin, fá tækifæri til þess að tjá hug sinn um hvort taka eigi upp aðildarviðræður við ESB.