david-travis-aVvZJC0ynBQ-unsplash-2

Sýn

Evrópuhreyfingin var stofnuð Evrópudaginn 9. maí 2022 af hópi fólks úr ýmsum áttum með ólíkar stjórnmálaskoðanir. Fólki með sameiginlega sýn um að nauðsynlegt sé að efla umræðu um Evrópu- og alþjóðamál og leiða fram þjóðarvilja um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Öll erum við sammála um að Ísland á að vera virkur þátttakandi í samfélagi þjóða á alþjóðavettvangi.

Ísland tekur þegar þátt í margvíslegu samstarfi og hefur sýnt og sannað að það hefur margt til málanna að leggja og sækir þangað styrk.

Stærsta samvinnuverkefni Evrópuþjóða er Evrópusambandið. Þar undir eru grundvallaratriði á borð við frið, lýðræði, réttarríki, mannréttindi, umhverfis- og loftslagsmál, öryggismál og viðskipti.

Öll erum við sammála um að brýnt sé að ræða í fullri alvöru og af yfirvegun um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, ekki síst um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Til þess þarf þátttöku sem flestra.

Íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Löngu er tímabært að það verði gert. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður að nýju.