Þjóðaratkvæði

Spurningin um aðild að Evrópusambandinu er þess eðlis að í senn er skynsamlegt og mikilvægt að þjóðin taka sjálfstæða afstöðu til aðildarinnar en eftirláti ekki stjórmálaflokkum, meirihluta Alþingis og ríkisstjórn, að ráða för.

Sátt um tvær umferðir

Þegar að er gáð virðist þrátt fyrir allt breið pólitísk sátt um að ekki skuli tekin frekari skref í átt að aðild að ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Í raun er átt við tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst hvort aðildarviðræður verði teknar upp. Verði það samþykkt verði síðan önnur atkvæðagreiðsla um aðildarsamning og aðild á grundvelli. Á hinn bóginn eru skiptar skoðanir um hvort og hvenær eigi að hefja ferli af þessu tagi.

Leiðin að settu marki

Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla yrði einsdæmi meðal allra þjóða sem hingað til hafa íhugað eða sóst eftir aðild að ESB. Engu að síður styður Evrópuhreyfingin að sú leið verði farin. Til þess að leiða spurninguna um aðild Íslands að ESB til lykta.

Evrópuhreyfingin mun beita sér fyrir að þetta ferli verði farið og samhliða því að beita sér fyrir umræðu og fræðslu um hvað aðild Íslands hefur í för með sér.

Fyrsta skrefið er að gera stjórnvöldum grein fyrir því að þjóðin vilji fá að taka þessar ákvarðanir. Það vill svo til að um þetta markmið ættu bæði þau sem eru hlynnt aðild og þau sem eru henni andvíg að geta verið sammála.

Ein besta leiðin til að ná þessu marki er að efna til undirskrifasöfnunar meðal kosningabærra landsmanna um að fyrri atkvæðagreiðslan verði haldin.