Þegar að er gáð virðist þrátt fyrir allt breið pólitísk sátt um að ekki skuli tekin frekari skref í átt að aðild að ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Í raun er átt við tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst hvort aðildarviðræður verði teknar upp. Verði það samþykkt verði síðan önnur atkvæðagreiðsla um aðildarsamning og aðild á grundvelli hans. Á hinn bóginn hafa skoðanir verið skiptar um hvort og hvenær eigi að hefja ferli af þessu tagi eftir að íslensk stjórnvöld stöðvuðu viðræðurnar með umdeildu bréfi þáverandi utanríkisráðherra árið 2015.
Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla yrði einsdæmi meðal allra þjóða sem hingað til hafa íhugað eða sóst eftir aðild að ESB. Engu að síður styður Evrópuhreyfingin að sú leið verði farin til þess að leiða málið til lykta.
Ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sem tók við völdum 21. desember 2024 hefur ákveðið að tímabært sé að spyrja þjóðina. Í stefnuyfirlýsingu hennar segir: „Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027“.
Evrópuhreyfingin fagnar þessum áfanga. Hún mun beita sér fyrir góðri umræðu og hvetja til þess að sem flest taki þátt, segi já og gefi þannig grænt ljós að aðildarviðræðurnar verði kláraðar og afraksturinn lagður í dóm okkar allra.