Þjóðin á leik

Aðalfundur Evrópuhreyfingarinnar

Aðalfundur Evrópuhreyfingarinnar verður haldinn í Iðnó fimmtudaginn 22. maí nk. og hefst kl. 17.

Fundarstjóri verður Dóra Sif Tynes lögmaður

Dagskrá

  1. Setning
  2. Skýrsla formanns
  3. Kosning formanns og meðstjórnenda (sjá frambjóðendur neðar á síðunni)
  4. Moving away from Brexit and towards a stronger European vision – Mike Galsworthy, formaður European Movement UK
  5. Ísland við borðið – Pallborðsumræður undir stjórn Boga Ágústssonar.
    • Þátttakendur: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Egilsson
  6. Umræður og önnur mál

Frambjóðendur

Framboð til formanns

Magnús Árni Skjöld Magnússon

Magnús er dósent við Háskólann á Bifröst og hefur gegnt störfum sem deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar auk þess að hafa verið rektor skólans um tíma. Hann er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið framhaldsnámi í Evrópufræðum, tónsmíðum og alþjóða- og þróunarhagfræði.
 
Magnús starfaði sem pólitískur ráðgjafi hjá borgaralegum sendifulltrúa Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Kabúl árið 2018 og hefur setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna. Hann hefur starfað við stjórnsýslu, rannsóknir, ráðgjöf og kennslu bæði á Íslandi og erlendis og ritað bækur og greinar um íslensk stjórnmál, evrópuvæðingu, efnahagsmál og öryggismál.

Framboð til stjórnar

Ágúst Ólafur Ágústsson

Ágúst Ólafur Ágústsson er fyrrverandi alþingismaður og efnahagsráðgjafi forsætisráðherra. „Á sínum tíma var ég annar formaður Evrópunefndar ríkisstjórnar. Í þeirri nefnd sátu fulltrúar stjórnmálaflokka ásamt fulltrúum vinnumarkaðarins og funduðum við
m.a. með framkvæmdastjórum ESB. Ég er ansi stoltur af því að okkur flestum í nefndinni, ASÍ, Viðskiptaráði, Samfylkingunni, Samtökum ferðaþjónustu, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, tókst að vinna sameiginlegt sérálit sem sagði „að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru“. Að ná þessum hópi saman með þessari niðurstöðu þótti talsvert afrek á sínum tíma“.

Ég starfaði einnig á aðalskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í New York. Mér er það minnistætt þegar ég fékk þau svör frá Lýbíu að þau gætu því miður ekki svarað könnun sem ég kom að, þar sem á þeim tíma væri borgarstyrjöld í gangi. Ég var einnig virkur í alþjóðaþingmannasambandinu, var í bankaráði Seðlabanka Íslands og hef verið formaður og varaformaður fjölda nefnda þar með talið
viðskiptanefndar Alþingis, allsherjarnefndar, heilbrigðisnefndar, framkvæmdasjóðs aldraða og sérstakrar Barnanefndar.

Ágúst Ólafur er lögfræðingur, hagfræðingur og er í doktorsnámi í opinberri stjórnsýslu. Þá starfar Ágúst nú einnig við ráðgjöf og við kennslu. „Ég er sannfærður að reynsla mín og þekking geti verið málstað Evrópuhreyfingarinnar til góðs.“

Dóra Magnúsdóttir

Ég hef verið Evrópusinni síðan á háskólaárum mínum þegar ég lagði stund á land- og stjórnmálafræði og tók þá Evrópukúrsa sem í boði voru og sá marga kosti við Evrópusambandsaðild. Síðar tók ég þátt í starfi Já Ísland. Ég fékk góða innsýn í málefni ESB þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Evrópustofu sem starfaði náið með sendinefnd ESB hérlendis. 

Ég vil láta gott af mér leiða gegnum félagsstarf, eins og ég hef gert á liðnum árum. Ég tók virkan þátt í borgarpólitíkinni 2014 – 2022 og sat  í fjöda nefnda og ráða á vegum borgarinnar og veitti sumum þeirra formennsku. Ennfremur sat ég í stjórn VR í átta ár. Áður hafði ég setið í stjórn Félags stjórnsýslufræðinga, Ráðstefnuskrifstofu Íslands, Ferðamálasamtaka Íslands og Sjóminjasafnsins Víkurinnar og fleiri.

Ég hef lokið prófi í landfræði, fjölmiðlafræði, markaðs- og viðskiptafræði (medieøkonom) og opinberri stjórnsýslu (MPA) og starfa sem samskiptastjóri hjá Hafrannsóknastofnun. Ég á börn á aldrinum 15 – 30 ára og hef skoðanir á flestu sem viðkemur ungu fólki og er sannfærð um að aðild Íslands að Evrópusambandinu skapi réttlátari framtíð fyrir ungt fólk. M.a. þess vegna gef kost á mér í þessa vinnu.

Helga Vala Helgadóttir

Ég býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn Evrópuhreyfingarinnar en þar hef ég setið undanfarin tvö ár. 

Evrópuhreyfingin á Íslandi þarfnast kraftmikillar stjórnar enda spennandi tímar framundan. Nú þegar ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að færa þjóðinni valdið til að
kjósa um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið er mikilvægt að auka samtalið um Evrópumál í víðtæku ljósi um allt samfélagið. Heimsmálin hafa þróast hratt á undanförnum árum og sjaldan hefur samstaða meðal Evrópuríkja verið mikilvægari. Þar skiptir máli að vera virkur þátttakandi með setu og atkvæðisrétt við borðið. 

Ég er lögmaður, leikkona og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar. Ég hef sterk tengsl við samfélagið um allt land, sem og við atvinnulíf og fjölmiðla sem ég tel að gagnist vel í störfum mínum í stjórn Evópuhreyfingarinnar.

Helgi Hrafn Gunnarsson

Hugbúnaðarsmiður, tækniráðgjafi og fyrrverandi alþingismaður. 
 
Nú þegar íslensk yfirvöld hafa ákveðið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu  árið 2027 um áframhald aðildarviðræðna, tel ég mikilvægast að halda á  lofti rökum fyrir aðild í almennri umræðu hvar sem þeim má koma fyrir.  
 
Sérstaklega tel ég mikilvægt að málflutningur Evrópusinna sé sýnilegur  þar sem andstaðan við aðild er mest. Við sigrum með því að sannfæra og  annars ekki.

Inger Erla Thomsen

Ég tók þátt í stofnun hreyfingarinnar og sat í stjórn hennar samhliða námi í stjórnmálafræði til ársins 2024. Í dag starfa ég sem sérfræðingur í málsvarastarfi og rannsóknum hjá UNICEF á Íslandi, en mannréttindi eru mér sérstaklega hugleikin.
 
Ég er að ljúka meistaranámi í Evrópufræðum (M.Sc. in European Affairs) við Háskólann í Lundi, þar sem lokaverkefnið mitt fjallar um ástæður þess að aðildarríki ESB og EES setja stefnu gegn gullhúðun og hvaða áskoranir fylgja slíkri stefnu. Við námið mitt hef ég lagt sérstaka áherslu á sameiginlega landbúnaðarstefnu ESB, smáríkjafræði og innleiðingu ESB-gerða.

Ég bý á Hvolsvelli og tel mikilvægt að rödd landsbyggðarinnar heyrist skýrt í umræðunni um Evrópumál og mögulega aðild Íslands að ESB. Það er mér hjartans mál að málefni landsbyggðarinnar verði rædd af festu og fagmennsku, og að hreyfingin endurspegli fjölbreytileika íslensks samfélags.
 
Þrátt fyrir ungan aldur hef ég öðlast fjölbreytta reynslu og er tilbúin til að leggja mig fram af krafti innan stjórnar Evrópuhreyfingarinnar.

Kristján Reykjalín Vigfússon

Kristján er aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og hefur kennt á öllum námsstigum, meðal annars evrópufræði, alþjóðaviðskipti, stefnumótun og samningatækni. Hann var jafnframt forstöðumaður MBA-námsins við skólann í sjö ár.

Kristján hefur sérhæft sig í stefnumótun og er að ljúka doktorsgráðu í því fagi. Hann er með MBA gráðu auk MA og BSc í stjórnmálafræði.
Rannsóknir hans beinast að stefnumótun og sjálfbærni, sérstaklega í sjávarútvegi.

Hann hefur starfað sem ráðgjafi fyrir fjölda fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka – meðal annars í Evrópuverkefnum. Kristján á að baki 14 ára starfsreynslu úr stjórnsýslunni. Hann starfaði í sendiráði Íslands í Brussel, í samgönguráðuneytinu, og sem aðstoðarforstjóri Siglingamálastofnunar. Hann gegndi jafnframt formennsku í samgöngu- og fjarskiptanefnd EFTA/EES í fimm ár og sat í stjórn Siglingaöryggisstofnunar Evrópu.

Ég tel mig hafa hvorttveggja fræðilega og hagnýta reynslu af Evrópumálum – sérstaklega EES-samningnum – hafandi starfað fyrir tvö ráðuneyti í Brussel. Formennskan í samgöngu- og fjarskiptanefnd EFTA/EES var einnig dýrmæt reynsla sem gaf mér tækifæri til að vinna og kynnast starfsemi Framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins. Seta í stjórn siglingaöryggisstofnunar Evrópu gaf mér ennfremur innsýn í vinnubrögð innan sambandsins.

Ég óska eftir stuðningi ykkar til setu í stjórn Evrópuhreyfingarinnar þar sem ég mun stuðla að málefnalegri umræðu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Páll Rafnar Þorsteinsson

Kennir stjórnmálaheimspeki við Háskóla Ísland. Starfaði hjá Siðfræðistofnun HÍ, áður sem deildarforseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst. Situr í stjórn Mannréttindastofnunar Íslands og er í núverandi stjórn Evrópuhreyfingarinnar.
 
Evrópusambandið stendur vörð um mikilvæg grundvallargildi, lýðræði og mannréttindi. Evrópusambandið er jafnframt kyndilberi þeirrar lögbundnu skipunar heimsmála sem er í raun forsenda hagsældar á Íslandi sem fullvalda þjóð. Þess vegna er brýnt hagsmunamál fyrir Íslendinga að taka fullan þátt í evrópskri
samvinnu.

Steinar Harðarson

Ég er þessi árin á eftirlaunum, en síðustu ár mín í föstu starfi voru hjá Vinnueftirliti ríkisins en þar starfaði ég árin 1999 – 2014 sem svæðisstjóri vinnustaðaeftirlits.

Ég starfa nú sjálfstætt í eigin fyrirtæki, Tækni- og akstursþjónustan ehf, sem vinnuverndarráðgjafi, í tæknilegu viðhaldi, sem bílstjóri og sem athafnastjóri hjá lífsskoðunarfélaginu Siðmennt.  

Frá 2011 hef ég setið í stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands, kosinn af Alþingi. Undanfarna áratugi hef ég tekið þátt í stjórnmálum og hef verið félagi í Vinstri grænum frá stofnun hreyfingarinnar.  

Ég hef setið í stjórn Vinstri Grænna í Reykjavík sem almennur stjórnarmaður, gjaldkeri og formaður. Ég hef setið á framboðslistum VG bæði til borgarstjórnar og til Alþingis.  Innan VG hef ég verið talsmaður þess að hreyfingin ræði og endurskoði/endurmeti afstöðuna til Evrópuaðildar/áframhaldi aðildarviðræðna. Þessi misseri er ég gjaldkeri Vinstri grænna.

Thomas Möller

Ég dvaldi í Berlín við nám í verkfræði í 6 ár og kynntist þar stöðugleikanum í Evrópu.

Ég hef starfað við stjórnun, markaðsmál og rekstrarstjórnun hjá stórum og litlum fyrirtækjum. Hef setið í stjórnum fyrirtækja, bæði einkareknum og opinberum.

Ég hef einnig starfað í mínu eigin fyrirtæki þannig að ég hef töluverða reynslu úr atvinnulífinu. Hef verið stundakennari við HR og Háskólann á Bifröst með námsefnið rekstarstjórnun og vörustjórnun.

Síðar tók ég MBA próf við HR og leiðsögupróf hjá MK. Í dag er ég sjálfstætt starfandi rekstrarráðgjafi og leiðsögumaður.
Hef skrifað pistla um ýmis málefni í Fréttablaðinu sem var og í dag hjá Eyjan/ DV. Megináhersla í skrifum mínum eru Evrópumál og að draga fram kosti þess að Ísland verði fullgildur aðili í ESB. 

Ég tók þátt í stofnun Viðreisnar og hef frá byrjun haft mikinn áhuga á Evrópumálum. Hef brennandi áhuga á Evrópusamstarfinu og vil taka virkan þátt og starfa við undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem er framundan. 

Mikilvægt er að mínu mati að „markaðssetja“ Evrópumálin vel og fá sem flesta til liðs við okkur sem viljum að Ísland verði hluti af ESB í framtíðinni.

Með stjórnarsetu í Evrópuhreyfingunni tel ég mig geta haft jákvæð áhrif með minni reynslu og þekkingu.