Metnaðarfullt verkefni

Merkisdagar

Evrópuhreyfingin var stofnuð þann 9. maí 2022. Það er ekki tilviljun að sá dagur varð fyrir valinu. Þann dag er haldinn hátíðlegur Evrópudagurinn sem er nokkurs konar sameiginlegur hátíðardagur Evrópusamvinnunar.

Þann 9. maí 1950 kynnti franski utanríkisráðherrann Robert Schuman yfirlýsingu sem síðan er kennd við hann. Þar er lagður grunnur að náinni samvinnu Evrópuþjóða, sem er nú orðin að Evrópusambandinu. Óhætt er að fullyrða að með þessum hætti hafi þjóðirnar bundist böndum sem hafa mótað Evrópu friðar og aukinnar hagsældar sem erfitt er að sjá fyrir sér að ella hefði orðið.

Það ekki heldur tilviljun að Evrópuhreyfingin stígur fram í dagsljósið þann 1. desember, daginn sem við fögnum því að þann dag árið 1918 tóku Sambandslögin gildi. Með þeim viðurkenndu Danir að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki.

Fullvalda og sjálfstæð

Við Íslendingar erum sjálfstæð og fullvalda þjóð og af því erum við stolt. Það er bæði gott og eðlilegt. Sjálfstæðinu og fullveldinu fylgja bæði réttindi og skyldur, bæði gagnvart þeim sem hér búa en líka gagnvart öðrum þjóðum. Fullveldið og sjálfstæðið eigum við að nýta til góðra verka okkur til hagsbóta en líka samfélagi þjóðanna. Það er einu sinni svo að við deilum veröldinni með öðrum sjálfstæðum og fullvalda þjóðum og allar verða þær að reiða sig hver á aðra á margvíslegan hátt.

Sem fyrr eigum við helst samleið með vestrænum lýðræðisríkjum, ekki síst Evrópuríkjum sem deila með okkur viðhorfum og gildum sem við viljum vernda og verja. Það er dagljóst að stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið um samstarf og samvinnu í okkar heimshluta er Evrópusambandið. Við höfum tengst því bandalagi sterkum böndum en ekki stigið skrefið til fulls. Raunar ætluðum við að gera það fyrir áratug en þau sem fóru með völdin á þeim tíma heyktust á því og stöðvuðu ferlið án þess að spyrja kóng eða prest, hvað þá Jón og Gunnu.

Heilbrigð sjálfsmynd

Þátttaka okkar Íslendinga í alþjóðastarfi þarf að sækja styrk sinn í heilbrigða sjálfsmynd sem byggir í senn á raunsæi, sjálfstrausti, samkennd og samábyrgð. Við eigum að vera órög að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi og við eigum að sitja við þau borð þar sem ákvarðanir eru teknar og sem okkur varða. Við eigum að sitja við þau borð sem heimilismenn, ekki gestir.

Vertu með

Við í Evrópuhreyfingunni viljum að öllum Íslendingum gefist kostur á því að taka beinan þátt í því að ákveða stöðu Íslands í evrópsku samstarfi. Aðild Íslands að Evrópusambandinu er mikið hagsmunamál og varðar sameiginlega framtíð okkar. Þess vegna þarf þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Evrópuhreyfingin býður alla velkomna til liðs við sig sem deila sýn okkar og vilja leggja sitt lóð á vogarskálar aukinnar Evrópusamvinnu.