Ómögulegur ómöguleiki

Mörg vilja ganga í Evrópusambandið, önnur alls ekki. Mörg eru alls ekki viss um hvað skynsamlegast er að gera. Enn önnur eru þeirrar skoðunar að ekki sé neitt vit í að gera upp sinn hug fyrr en samningur liggur á borðinu, að án samnings, sem hægt er að ræða efnislega, sé tómt mál að tala um skynsamlega og yfirvegaða ákvörðun.

Þjóðinni ekki hleypt að
Ísland hefur einu sinni sótt um aðild að Evrópusambandinu og hafið samningaviðræður. Þeim viðræðum var ekki lokið og rann málið út í sandinn og kom aldrei til þess að samningur yrði borinn undir þjóðina. Kosningar voru haldnar og því hátíðlega lofað að bera framhald aðildarviðræðnanna undir þjóðina. Það hefur hins vegar aldrei verið gert og borið við að pólitískur ómöguleiki væri kominn upp í málinu. Þar með þyrfti ekki og ætti ekki að gera neitt frekar í málinu.

53.555 hunsuð
Rétt að rifja upp að þessi undarlegu örlög aðildarviðræðna leitt til einnar af stærstu undirskriftarsöfnunar sögunnar þegar 53.555 kosningabærir Íslendingar kröfðust þess að fá að kjósa um framhaldið eða tæp 21%.  Þá voru haldnir margir fjölmennir mótmælafundir á Austurvelli þar sem því var mótmælt harðlega að samningaviðræðum var hætt. Hinn óviðráðanlegi og óskiljanlegi pólitíski ómöguleiki lét allt þetta sem vind um eyrun þjóta.

Samhljómur um færa leið
Fátt er þó svo með öllu illt að ei boði gott. Af ummælum flestra stjórnmálaforingja og stefnuskrám flestra stjórnmálaflokkanna má ráða að samhljómur sé orðinn um að minnsta kosti eitt atriði þessa stóra máls. Í því felst að ekki verði teknar upp aðildarviðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eitt og sér er góðs viti.

Íslensk Krísuvíkurleið
Hvað sem fólki kann að finnast um þessa leið og aðferðafræði þá er rétt að horfast í augu við að hana verður að feta. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla yrði einsdæmi meðal allra þjóða sem hingað til hafa íhugað eða sóst eftir aðild að ESB. Engu að síður styður Evrópuhreyfingin að sú leið verði farin til þess að leiða spurninguna um aðild Íslands að ESB til lykta. Fyrsta skrefið er að gera stjórnvöldum grein fyrir því að þjóðin vilji fá að taka þessar ákvarðanir. Það vill svo til að um þetta markmið ættu bæði þau sem eru hlynnt aðild og þau sem eru henni andvíg að geta verið sammála.

Ekkert er ómögulegt
Evrópuhreyfingin mun því undirbúa og efna til undirskrifasöfnunar meðal kosningabærra landsmanna um að fyrri atkvæðagreiðslan verði haldin. Því betur sem tekst til við þetta verkefni og fleiri skrifa undir þeim mun erfiðara verður fyrir stjórnmálamenn að beita fyrir sig hinum pólitíska ómöguleika til þess að neita þjóðinni um að leiða til lykta eitt stærsta hagsmunamál hennar fyrr og síðar.

Deilir þú þeirri skoðun skaltu ganga til liðs við okkur á www.evropa.is.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. mars 2023)

Jón Steindór Valdimarsson
Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar