Endurmat hagsmuna er skylda stjórnvalda á hverjum tíma. Hagsmunir geta breyst með hægfara þróun eða gerst í kjölfar óvæntra atburða. Árásarstríð Rússa er óvæntur stóratburður sem kallar á endurmat þar sem eru undir sameiginleg gildi, vörn gegn uppgangi hugmyndafræði sem byggir á valdi hins sterka, einræðistilburðir, vanvirðing mannréttinda og frjálslyndra viðhorfa í stóru sem smáu. Þá eru öryggis- og varnarmál, orkumál, umhverfismál og greið viðskipti einnig stór þáttur í slíku endurmati.
Breytt um kúrs
Í flestum ríkjum og stofnunum Evrópu, sem eru vestan við landamæri Rússlands, hefur innrás Rússa í Úkraínu leitt til mikillar umræðu og endurskoðunar á viðhorfum og stefnu. Nærtækast er að benda á umskiptin í Finnlandi og Svíþjóð gagnvart aðild sinni að NATO. Í þeim efnum var ákveðið að ráðast í endurmat og á grundvelli þess skipt um áratuga gamla stefnu og sótt um aðild.
Djúpstæð áhrif
Það blasir við öllum að innrás Rússa í Úkraínu mun hafa langvarandi og djúpstæð áhrif á samvinnu og samstarf Evrópuríkja. Þess vegna þarf að þétta raðirnar og gæta þess um leið að stjórnarfar, mannréttindi, frelsi og öll samskipti innan Evrópu sjálfrar lúti þeim gildum sem við erum flest sammála. Evrópa, þar sem þungamiðjan eru ESB-ríkin og náið samstarf þeirra, þarf að styrkja innviði sína, huga sem aldrei fyrr að sjálfbærni og sjálfstæði sínu á öllum sviðum. Það er varhugavert að treysta um of á aðra, hvort sem er á sviði viðskipta, orku eða öryggis- og varnarmála, nema það traust sé á bjargi reist.
Traustu vinurinn
Hér kemur líka til skoðunar hvort Evrópa leggi of mikið traust á Bandaríkin sem einhvers konar bakhjarl sem alltaf komi til skjalanna ef ógn steðjar að, einkum á sviði varnar- og öryggismála. Á liðnum árum hefur komið skýrt fram að ekki er alltaf víst að valdhafar þar á bæ beri hag Evrópu fyrir brjósti og séu tilbúnir til að leggja á sig fórnir hennar vegna. Þá er óvíst að almenningur í Bandaríkjunum styðji heilshugar það hlutverk sem Bandaríkin hafa leikið í öryggis- og varnarmálum allt frá síðari heimsstyrjöld.
Varðstaða um gildi
Ísland á hér gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta. Þá þarf að verja. Nærtækasta leiðin, og sú sem blasir við sjónum, er að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þannig verjum við okkar hagsmuni um leið og við göngum í lið með þeim sem standa þéttastan vörð um þau gildi og þjóðfélagsskipan sem við aðhyllumst. Fyrir okkur er enn víðtækara og öflugra samstarf innan ESB besta leiðin sem er í boði til þess að stuðla að stöðugleika, friði og frelsi í álfunni.
Ærin verkefni
Endurmatið er ekki bara nauðsynlegt vegna árásarstríðs Rússa sem hefur svipt hulunni af ógn við frið og fullveldi þjóða. Fleira kemur til sem hefur af vaxandi þunga bæst á verkefnaskrá Evrópuþjóðanna og varðar viðfangsefni sem verður að leysa í sameiningu. Dæmi um þetta eru loftslags- og umhverfismál, málefni innflytjenda og flóttamanna, matvæla- og orkuöryggi og málefni norðurslóða svo einhver séu nefnd.
Tíminn stendur í stað
Það veldur vonbrigðum að íslensk stjórnvöld taka þessar breyttu aðstæður og þýðingu þeirra fyrir stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu af einkennilegu fálæti. Að því er virðist er að þeirra mati engin ástæða til að skoða þessi mál af alvöru, að minnsta kosti ekki þegar kemur að hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Forystufólk flokkanna heldur sig fast við að hér þurfi ekkert að skoða og hafi ekki þurft um langa hríð. Þess er því ekki að vænta að stjórnvöld muni hafa nokkurt frumkvæði í þessum efnum.
Haldið fyrir augu og eyru
Nú rís hins vegar bylgja almennings sem krefst þess að vera spurð um hvort taka eigi upp aðildarviðræður við ESB að nýju. Þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um málið til þess að leiða fram þjóðarviljann með skýrum hætti. Sömuleiðis benda kannanir eindregið til þess að viðhorfsbreyting sé að verða meðal almennings og að meirihluti sé að verða fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Nú er spurning hvort stjórnvöld haldi uppteknum hætti og haldi fyrir augu og eyru, sjái ekkert – heyri ekkert.
Tímabært að spyrja
Staðreyndin er sú að þjóðin hefur aldrei verið spurð beint að því hvað hún vill í þessum efnum. Því vill Evrópuhreyfingin breyta því það er ekki tíðindalaust í Evrópu.
Deilir þú þeirri skoðun skaltu ganga til liðs við okkur á www.evropa.is.
(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. mars 2023)
Jón Steindór Valdimarsson
formaður Evrópuhreyfingarinna