Seinni partinn í ágúst gerði Maskína könnun fyrir Evrópuhreyfinguna um afstöðu landsmanna til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Niðurstöður eru býsna afgerandi og mun fleiri landsmenn eru hlynntir þjóðaratkvæði en þeir sem eru andvígir. Það er gleðilegt vegna þess að aðild Íslands er stórmál og skoðanir eru skiptar um hvort stefna eigi á aðild eða ekki. Fólk er greinilega á því að þetta sé rétt leið að fara hvort sem það er hlynnt aðild, henni andsnúið eða hefur ekki gert upp sinn hug.
Í könnuninni var m.a spurt:
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur/t) þjóðaratkvæðagreiðslu um að Ísland taki aftur upp aðildarviðræður við ESB?
Heildarniðurstaðan er sú að 57,3% segjast hlynnt, 18,9% andvíg og 23,8% hvorki hlynnt né andvíg. Ef einungis er horft til þeirra sem segjast hlynnt eða andvíg þá eru 75,2% hlynnt en 24,8% andvíg. Meirihlutinn er afgerandi.
Í könnun Maskínu eru svörin greind eftir mismunandi bakgrunnsbreytum svarenda, s.s kyni, aldri, búsetu, menntun, heimilistekjum og stuðningi við stjórnmálaflokka. Skemmst er frá því að segja að allar breytur skiluðu meirihluta sem var hlynntur – nema ein.
Rétt er að rýna aðeins í þessar breytur.
Einungis er birt hlutfall milli þeirra sem segjast annað hvort hlynnt eða andvíg.
Kyn
Hlynnt | Andvíg | |
Karlar | 75,3 | 24,7 |
Konur | 75,1 | 24,9 |
Hér vekur athygli að nánast enginn munur er á milli kynja. Það er ánægjuleg niðurstaða.
Á hinn bóginn er rétt að benda á að konur segja frekar hvorki hlynnt né andvíg 28,7 en 19,4% karla.
Aldur
Hlynnt | Andvíg | |
18 – 29 | 78,3 | 21,7 |
30 – 39 | 79,2 | 20,8 |
40 – 49 | 80,1 | 19,9 |
50 – 59 | 71,1 | 28,9 |
60 ára og eldri | 68,3 | 31,7 |
Þegar svör eru greind eftir aldri kemur í ljós að þau sem eru á aldrinum 18 – 49 ára eru hlynntust, eða tæplega 80% en þau sem eru 50 ára og eldri síður en eru þó um 70%.
Yngsti hópurinn svarar oftast hvorki né eða 28% en elsti aldurshópurinn sjaldnast eða 15,2%.
Búseta
Hlynnt | Andvíg | |
Reykjavík | 79,4 | 20,6 |
Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur | 74,1 | 25,9 |
Suðurland og Reykjanes | 65,4 | 34,6 |
Vesturland og Vestfirðir | 78,8 | 21,2 |
Norðurland | 71,7 | 28,3 |
Austurland | 77,8 | 22,2 |
Búseta skiptir fólki ekki í fylkingar eftir því hvort það býr á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Það er afar ánægjulegt þegar mál af þessu tagi á í hlut.
Á þennan mælikvarða munar 14 prósentustigum á milli Reykjavíkur (79,4%) og Suðurlands og Reykjaness (65,4%) á þeim sem eru hlynnt.
Í Reykjavík eru fæst sem svara hvorki né 21,9% en flest á Norðurlandi 30,4%.
Menntun
Hlynnt | Andvíg | |
Grunnskólapróf | 75,1 | 24,9 |
Framhaldsskólapróf Iðnmenntun | 71,3 | 28,7 |
Háskólapróf | 79,4 | 20,6 |
Munur eftir menntun svarenda er ekki mjög áberandi eins og niðurstöðurnar bera með sér. Hins vegar sést að með aukinni menntun verður afstaðan ákveðnari. Hjá háskólamenntuðum svara 20,2% hvorki né en hlutfallið hjá þeim sem eru með grunnskólapróf er 30%, en 24,7% hjá þeim sem eru með framhaldsskólapróf eða iðnmenntun.
Heimilistekjur
Hlynnt | Andvíg | |
Lægri en 400 þúsund | 76,1 | 23,9 |
400 – 549 þúsund | 79,4 | 20,6 |
550 – 799 þúsund | 76,0 | 24,0 |
800 – 999 þúsund | 88,5 | 21,5 |
Milljón – 1.199 þúsund | 77,6 | 22,4 |
1.2 þúsund eða hærri | 77,5 | 22,5 |
Tekjur hafa lítil áhrif á skoðanir.
Það munar aðeins 3,3 prósentustigum þar sem bilið er mest á milli þeirra sem segjast hlynnt.
Það er mjög áberandi að þau tekjulægstu svara oftast þannig að þau séu hvorki hlynnt né andvíg eða 43,2%, en sama hlutfall hjá þeim tekjuhæstu er 16,8%. Hlutfallið hjá þeim sem er þarna á milli er 21,3%, 27,8%, 21,3% og 25,7%.
Hvaða flokk myndir þú kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag?
Hlynnt | Andvíg | |
Sjálfstæðisflokkinn | 42,5 | 57,5 |
Miðflokkinn | 46,7 | 53,3 |
Framsóknarflokkinn | 54,1 | 45,9 |
Flokk fólksins | 74,5 | 25,5 |
Sósíalistaflokk Íslands | 79,7 | 20,3 |
Pírata | 89,5 | 10,5 |
Vinstri-græn | 81,9 | 18,1 |
Samfylkinguna | 94,7 | 5,3 |
Viðreisn | 99,3 | 0,7 |
Það kemur ef til vill ekki á óvart að teygnin í svörum sé mest þegar horft er til stuðnings við stjórnmálaflokka. Það eru þó bara stuðningsfólk tveggja flokka, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, sem sker sig úr að því leyti að þar eru fleiri andvíg en hlynnt þjóðaratkvæði. Engu að síður er stuðningurinn í þessum flokkun verulegur.
Lengst er á milli Sjálfstæðsflokksins og Viðreisnar þegar kemur að þeim sem eru hlynnt.
Hjá Sjálfstæðisflokknum eru það 42,5% en 99,3% hjá Viðreisn. Þau sem svara hvorki né hjá Sjálfstæðisflokknum eru 26% en 4,3% hjá Viðreisn.
Ekkert að vanbúnaði
Það er eftirtektarvert að hjá tveimur stjórnarflokkum, Framsókn og Vinstri-grænum, er rúmur meirihluti hlynntur þjóðararkvæði. Að þessu leyti ætti því ekki að vera erfitt fyrir stjórn og stjórnarandstöðu að sameinast um að efna til þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna.
Evrópuhreyfingin hvetur Alþingi til að bregðast við þessum óskum landsmanna og hefja undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort að Ísland taki aftur upp aðildarviðræður við ESB.