Hreinn meirihluti kjósenda telur mikilvægt að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á
komandi kjörtímabili um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið.
Alls segja 55% það mikilvægt, 21% í meðallagi mikilvægt en 24% lítilvægt. Þessi
niðurstaða er mjög afgerandi. Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Evrópuhreyfinguna dagana 8.-13. nóvember síðastliðinn og voru svarendur 1524 talsins.
Fróðlegur samanburður við afstöðu stjórnmálaflokkanna
84,1% kjósenda Pírata telja mikilvægt að á næsta kjörtímabili verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. 77,8% kjósenda Viðreisnar taka í sama streng en báðir flokkarnir segjast munu beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið á næsta kjörtímabili. Samfylking leggur ekki áherslu á framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB á næsta kjörtímabili heldur ætlar að beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á öðrum tímapunkti. 73,9% kjósenda Samfylkingar eru þó á öðru máli og telja mikilvægt að kosið verði um málið á næsta kjörtímabili.
65,1% kjósenda Flokks fólksins telja mikilvægt að kjósa um framhald viðræðna sem er áhugavert í ljósi þess að flokkurinn sér ekki ástæðu til að beita sér fyrir þjóðaratkvæði um málið. Flokkur fólksins mun þó ekki beita sér gegn þjóðaratkvæðagreiðslu setji aðrir flokkar hana á dagskrá. Sósíalistaflokkurinn lítur svo á að það séu önnur mál sem séu meira aðkallandi í stöðunni í dag og mun því hvorki beita sér fyrir né gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um málið en 59,4% kjósenda Sósíalista meta hana þó mikilvæga. Um helmingur kjósenda Vinstri grænna telur mikilvægt að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild en mun flokkurinn ekki beita ser fyrir henni.
Um könnunina
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu. Svarendur eru 18 ára og eldri af öllu landinu. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri, búsetu og menntun. Við vigtun gagna getur birst örlítið misræmi í fjöldatölum og hlutföllum sem orsakast af námundun.